Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1246  —  683. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um heilbrigðisþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og einstaklinga sem hafa fengið vernd.


     1.      Hvaða reglur gilda um heilbrigðisþjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd eða þeirra sem hafa fengið hér vernd samanborið við aðra sjúkratryggða?
    Almennar reglur um veitingu heilbrigðisþjónustu gilda jafnt um alla þá sem dvelja hér á landi, hvort sem um er að ræða umsækjanda um alþjóðlega vernd eða einstakling sem er sjúkratryggður á grundvelli laga um sjúkratryggingar. Munur á réttarstöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd og sjúkratryggðra felst einkum í kostnaði vegna þjónustunnar.
    Umsækjanda um alþjóðlega vernd er skylt að gangast undir læknisskoðun eftir framlagningu umsóknar, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Í 33. gr. laganna eru síðan tilgreind réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Fela réttindin m.a. í sér aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, þar á meðal vegna geðraskana og geðfötlunar. Sérstakt tillit skal tekið til þeirra sem hafa sérþarfir eða þurfa sérstaka aðstoð og þá skulu barnshafandi konur fá aðgang að mæðravernd og fæðingarhjálp. Fram kemur í athugasemdum við 33. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga að réttur til heilbrigðisþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd vísi til bráðnauðsynlegrar þjónustu sem ekki þolir bið eða veldur viðkomandi sársauka. Þannig á umsækjandi rétt á meðferð sem ekki er hægt að tefja vegna þess að ljóst þyki að umsækjandi líði mikinn sársauka eða hætta sé á að sjúkdómur þróist eða að einkenni festist í sessi. Kemur einnig fram að innan þessa ramma falli sálfræðiþjónusta og þjónusta geðlækna. Nánar er fjallað um heilbrigðisþjónustu til umsækjenda um alþjóðlega vernd og greiðslur vegna hennar í 26. gr. reglugerðar nr. 540/2017, um útlendinga. Geti umsækjandi ekki staðið undir kostnaði sjálfur stendur Vinnumálastofnun straum af kostnaði vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu og þeirra lyfja sem eru nauðsynleg að læknisráði.
    Hljóti umsækjandi alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er hann sjúkratryggður, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Fer um greiðsluþátttöku þeirra eftir sömu reglum og gilda um aðra sjúkratryggða, sem nánar er útfærð í reglugerð nr. 1551/2023, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

     2.      Njóta umsækjendur um alþjóðlega vernd eða þeir sem hafa fengið hér vernd forgangs að heilbrigðisþjónustu? Ef svo er, hvaða heilbrigðisþjónustu og hvaða reglur mæla svo fyrir og hvaða rök liggja þar að baki?
    Hvorki umsækjendur um alþjóðlega vernd né þau sem hafa fengið hér vernd njóta forgangs að almennri heilbrigðisþjónustu.
    Eins og áður greinir er umsækjendum um alþjóðlega vernd skylt að gangast undir læknisskoðun við komu til landsins, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016. Í fyrstu skoðun er heilsufar umsækjenda metið og veitt viðeigandi meðferð ef á þarf að halda, ásamt því að skimað er fyrir smitsjúkdómum samkvæmt viðmiðunarreglum sóttvarnalæknis.

     3.      Hefur ráðuneytið veitt undirstofnunum sínum einhverjar leiðbeiningar eða tilmæli um hvernig skuli staðið að heilbrigðisþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd eða þá sem hafa fengið vernd?
    Ráðuneytið hefur ekki veitt undirstofnunum sínum einhverjar leiðbeiningar eða tilmæli um hvernig skuli staðið að heilbrigðisþjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd eða þá sem hafa fengið vernd, umfram þær almennu reglur sem gilda um veitingu heilbrigðisþjónustu almennt, og gilda jafnt um alla þá sem hér dvelja, sbr. svar við 1. lið fyrirspurnarinnar.